Svifflugfélagið hefur gert samning við Flugstoðir um að félagið veiti flugradíóþjónustu á Sandskeiði nú í sumar. Samkvæmt samningnum er áætlað að veita þessa þjónustu frá kl. 16 til 22 virka daga og kl.12 til 18 um helgar fram í miðjan ágúst.
Svifflugfélagið leitar að starfsmönnum sem geta sinnt þessari þjónustu.Til greina kemur að vinna einstaka daga, allt eftir hentugleikum. Laun eru samkomulagsatriði.
Aðstaða verður í klúbbhúsi félagsins en nú er verið að setja þar nýja glugga og millivegg.
Tilgangurinn með flugradíóþjónustunni er að létta á æfingarflugi á Reykjavíkurflugvelli með því veita flugradíóþjónustu á
Sandskeiðsflugvelli til snertilendinga fyrir flugkennslu. Verið er að endurnýja vélflugbrautina og setja á hana bundið slitlag. Vélflug mun verða þjónustað á vélflugbrautinni með umferðarhring til norðurs á meðan svifflugið verður á grasbrautunum og alla jafna til suðurs frá vellinum.
Nú mun verða í fyrsta skipti veitt AFIS þjónusta á Sandskeiði og er verið að móta þessa starfsemi nú á þessu fyrsta sumri. Samstarf er við Flugstoðir um þessa þjónustu og uppfylltar þær reglur sem Flugmálastjórn setur um þjónustuna.
Kjörið starf fyrir þá sem hafa gaman af flugi. Flugumferðarstjórar sem eru komnir á eftirlaun eða menn með AFIS réttindi eða aðrir sem
geta sinnt þessu starfi er velkomið að hafa samband.
Nánari upplýsingar veitir Kristján Sveinbjörnsson formaður í síma
8929120 eða [email protected]